„Þetta félag er ekki jafn stórt og nafnið gefur til kynna,“ segir Kristján Torfi Einarsson. Kristján hefur ásamt nokkrum vina sinna stofnað samlagsfélagið Útgerðarfélag Vestfjarða. Félagið er stofnað utan um kaup á svokölluðum flugfiski, báti sem þeir ætla að gera út á handfæraveiðar næsta sumar.

Kristján þekkja margir í blaðamannastéttinni en hann var um nokkurra ára bil blaðamaður hjá Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu. Faðir hans var Einar Oddur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Hjálms á Flateyri og fyrrverandi formaður Vinnuveitendasambands Íslands og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Einar lést fyrir aldur fram árið 2007.