Í kjölfar þess að samningar tókust á milli Íslandsbanka, skilanefndar Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa og íslenska ríkisins hefur Íslandsbanki ákveðið að birta stofnefnahagsreikning bankans og er hann dagsettur 15 október 2008. Samkvæmt honum eru heildareignir bankans um 629 milljarðar.

Í tilkynningu bankans á heimasíðu hans kemur fram að útlánasafn bankans er vel dreift. Einnig segir að verðtryggingar- og gjaldeyrisójöfnuður bankans sé viðráðanlegur. Samkvæmt nýbirtum stofnefnahagsreikningi eru eignir Íslandsbanka um 629 milljarðar.

Helstu liðir á eignahlið stofnefnahagsreikningsins eru lausafé að fjárhæð ríflega 53 milljarðar, útlán til viðskiptavina um 477 milljarðar og ógreitt hlutafjárloforð að fjárhæð rúmlega 64 milljarðar króna. Þessi upphæð hefur nú verið að fullu greidd til bankans sem eiginfjárframlag ríkisins.

Útlánasafn bankans er vel dreift en um 32% útlána eru til einstaklinga, um 16% til sjávar-útvegsfyrirtækja, 14% til fasteignafélaga, 11% til fjárfestingafélaga og 27% til annarra atvinnugreina.