Mike Lazaridis og Douglas Fregin, stofnendur kanadíska farsímaframleiðandans BlackBerry, eru sagðir íhuga að leggja fram kauptilboð í fyrirtækið. Vangaveltur þeirra kom þvert ofan í tilboð sem kanadíska tryggingafélagið  Fairfax Financial Holding, stærsti hluthafi BlackBerry, hefur gert í reksturinn. Tilboðið sem liggur á borðinu núna hljóðar upp á 4,7 milljarða dala.

Samkvæmt umfjöllun Reuters-fréttastofunnar eiga þeir Lazaridis og Fregin samanlagt 8% hlut í BlackBerry. Stærsti hluthafinn á hins vegar um 10% hlut.

Lazardis var aðstoðarforstjóri BlackBerry þar til snemma á síðasta ári þegar honum var sparkað í mikilli uppstokkun á rekstri fyrirtækisins. Sú uppstokkun stendur enn yfir. Þar á meðal var nafni fyrirtækisins breytt úr Research in Motion í BlackBerry.