Stofnendur íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins CLARA munu halda áfram að vinna hjá fyrirtækinu eftir yfirtöku Jive Software. Seint í gær var greint frá því að bandaríska fyrirtækið Jive hefði keypt CLARA fyrir andvirði eins milljarðs króna.

Á Facebook síðu sinni segir Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, einn stofnenda fyrirtækisins að eina breytingin sé sú að bakland CLARA muni styrkjast. „Við munum halda áfram að vinna að því sem við byrjuðum á fyrir fimm árum: Að hjálpa fyrirtækjum að skilja viðskiptavini sína betur,“ skrifar Gunnar á ensku.

Hann bætir því við að hugsanlega muni þeir þurfa að mæta í buxum í vinnuna framvegis.