Index Ventures, sem fjárfesti í Facebook, Skype, Candy Crush og Clash of Clans, veðjar á íslenska fyrirtækið Teatime, sem stofnað var fyrir þremur mánuðum síðan af lykilmönnunum á bakvið QuizUp. Forstjóri Tencent, sem er sjöunda stærsta fyrirtæki heims og var stór fjárfestir í Snapchat, Uber og Tesla og var á meðal stærstu fjárfestanna í QuizUp, er einn þeirra sem hyggst fjárfesta í hinu nýja fyrirtæki.

Um er að ræða eina stærstu frumfjárfesting í hugbúnaðarfyrirtæki hér á landi en Teatime var formlega stofnað fyrir einungis þremur mánuðum. Alls leggja fjárfestarnir jafnvirði um 200 milljónir króna til stofnunar Teatime, en stærsti fjárfestirinn er Index Ventures sem fjárfestir 75 milljónum.

Index Ventures er alþjóðlegur fjárfestingarsjóður sem fjárfesti í Facebook, Skype, Candy Crush og Clash of Clans. Teatime hyggst þróa tölvuleiki fyrir farsíma sem tengja fólk saman í rauntíma á áður óþekktan hátt að því er segir í fréttatilkynningu um málið. Að mati Guzman Diaz, yfirmanns leikjafjárfestinga Index Ventures, er tækni Teatime tækifæri til að koma með algerlega nýja hugmynd á markað.

Lykilstarfsmenn Plain Vanilla á bak við Teatime

Stofnendur Teatime eru þeir Þorsteinn Baldur Friðriksson, Ýmir Örn Finnbogason, Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson og Jóhann Þorvaldur Bergþórsson. Allir voru þeir stofnendur eða lykilstarfsmenn hjá Plain Vanilla sem gaf út QuizUp spurningaleikinn og um 100 milljónir manna hafa spilað.

Í fjárfestahópnum eru margir sömu fjárfestarnir og komu að Plain Vanilla og QuizUp. Þar má m.a. nefna David Wallerstein, forstjóra Tencent í Bandaríkjunum. Tencent er sjöunda stærsta fyrirtæki heims miðað við markaðsvirði en það er metið á 400 milljarða Bandaríkjadala.

Fyrirtækið á mörg stór tæknifyrirtæki í Kína en var einnig á meðal stærstu fjárfesta í leigubílaþjónustunni Uber og bílaframleiðandanum Tesla. Einnig eru á meðal fjárfesta Davíð Helgason, stofnandi Unity, sem framleiðir þróunarumhverfi fyrir tölvuleiki, og íslenski fjárfestingasjóðurinn Investa auk annarra. Teatime hefur komið sér fyrir í skrifstofuhúsnæði á efstu hæð á Laugavegi 26.

Gerist ótrúlega hratt

Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Teatime segir ótrúlegt hvað þetta sé að gerðast hratt. „Eftir að QuizUp var selt til Bandaríkjanna í byrjun þessa árs þá tók við kærkomið frí, en eftir nokkra mánuði fann maður fyrir sterkri löngun til þess að skapa eitthvað nýtt,“ segir Þorsteinn.

„Það var svo í sumar sem fjórir af fyrrverandi stjórnendum Plain Vanilla hittust og úr varð ný hugmynd sem við urðum strax mjög spenntir fyrir. Við ákváðum því að stofna nýtt fyrirtæki og bárum hugmyndina undir ýmsa fjárfesta sem við þekktum og höfðu verið með okkur í Plain Vanilla.

Móttökurnar voru vægast sagt góðar og ég er ótrúlega þakklátur fyrir þá trú sem fjárfestarnir hafa haft á hugmyndinni og það traust sem þeir sýna teyminu. Svo bætist við þessi stóri alþjóðlegi fjárfestingarsjóður, Index Ventures, sem hefur gríðarmikla reynslu af fjárfestingum í leikja- og samskiptaiðnaðinum.

Þeir leiða fjárfestinguna og koma þar að auki með dýrmæt tengsl að borðinu sem munu hjálpa okkur að ná árangri á þessum stóra markaði. Það að safna svo miklu fjármagni strax við stofnun hjálpar okkur að vinna hraðar í átt að markmiði okkar sem er að bylta því hvernig fólk spilar farsímaleiki.

Samskipti stór hluti spilaupplifunar

Í gegnum reynslu okkur af QuizUp sáum við skýrt hvað samskipti milli fólks eru stór hluti af spilaupplifuninni og fjárfestarnir hafa trú á okkar hugmyndum um hvernig megi stórbæta upplifun af farsímaleikjum með nýrri nálgun. Við munum nú fara á fullt að ráða starfsfólk í þróun á fyrstu útgáfu Teatime og vonandi getum við sýnt fólki eitthvað innan nokkurra mánaða.“

Guzman Diaz, Index Ventures segir fjárfestinguna þá fyrstu sem fyrirtækið geri hér á landi. „Ég er gríðarlega spenntur að starfa með svona framúrskarandi teymi og hjálpa þeim að koma algerlega nýrri hugmynd á markað.“