Nýr asískur veitingastaður , Nam, hefur opnað á Bíldshöfða en nafnið er stytting á „nútíma asísk matargerð“. Á bakvið staðinn eru stofnendur Serrano-keðjunnar, þeir Einar Örn Einarsson og Emil Helgi Lárusson.

Bento-box, Dumplings, Banh Mi og rótsterkar Udon-núðlusúpur Matargerð frá Asíu hefur notið vinsælda á Íslandi en margir af réttunum á Nam hafa hins vegar ekki fengist hér áður. Þar á meðal eru svokallaðir „dumplings“, sem eru soðnir deigboltar með vel kryddaðri kjöt- og grænmetisblöndu innan í.

Á NAM verður einnig hægt að fá svokölluð bento-box, en bento-box er eins konar japanskt nestisbox sem margir ættu að kannast við – sér í lagi þeir sem komið hafa til Japans eða nærliggjandi landa í Asíu. Á meðal annarra rétta sem finna má á matseðlinum hjá NAM eru svínarif, udon-núðlur, súpur og nautakjöt ásamt fersku grænmeti sem framreitt er upp á asískan máta. Til að skola matnum niður eru í boði nokkrar tegundir af fersku íste.

Í tilkynningu frá NAM er haft eftir Einari Erni Einarssyni: „Ég hef lengi verið aðdáandi asískrar matargerðar en það verður að segjast eins og er að framboðið á Íslandi hefur verið nokkuð einhæft. Tælenskir staðir hafa t.d. verið mjög áberandi. Matargerðin hjá okkur er m.a. undir kínverskum og víetnömskum áhrifum, þetta er sterkur og bragðmikill en ferskur og hollur matur. Við teljum okkur vera að koma með ýmsar nýjungar inn í flóru asískra veitingastaða hér á landi. Meiri áhersla er lögð á ferskleika og það má segja að matreiðslan sé bæði nútímalegri og hollari en Íslendingar eiga að venjast. En um leið er maturinn mjög líkur því sem þú getur fengið á götu í stórborgum Asíu í dag. Í Svíþjóð er sannkallað æði fyrir þessari matarhefð sem kom beint í kjölfarið á sushi-bylgjunni. Vesturlandabúar hafa verið að enduruppgötva asískan mat og borða hann oftar sem skyndibita í hádeginu og á kvöldin. Við teljum að Íslendingar séu sífellt að verða kröfuharðari varðandi gæði skyndibita, enda borðar fólk mikið oftar úti og eldar sjaldnar heima en það gerði. Það þarf samt ekki að koma niður á því að fólk eigi saman samverustund, því að asísk matarhefð gerir beinlínis ráð fyrir því að það séu fleiri réttir og að fólk deili með hvort öðru. En það er einmitt eitt af því sem er skemmtilegt við bento-boxin. Þú ert kannski bara einn, en þú færð samt 6 ólíka hluti í einum rétti á verði hefðbundins skyndibita. Það má segja að sushi-bylgjan hafi rutt fyrir okkur brautina þannig að Íslendingar kunna núna meira inn á þessa asísku matarmenningu. Eða við treystum á það að minnsta kosti,“segir Einar að lokum.