Dómi í máli minnihlutahluthafa Stofnfisks hf., sem kveðinn var upp af Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði, hefur verið áfrýjað til Landsréttar. Þetta má sjá á lista réttarins yfir áfrýjuð mál.

Í málinu krafðist félagið L1076 ehf., sem á rúmlega tíu prósent hlut í Stofnfiski, sem nú ber heitið Benchmark Genetics Iceland hf., ógildingar á ákvörðun hluthafafundar þar sem félagið samþykkti að gangast í ábyrgð fyrir skuldum móðurfélagsins, hins norska Benchmark Holding en það á rúm 89% í félaginu.

Ákvörðunin fól í sér að allar eignir dótturfélagsins, sem metnar voru á tæpa 6,4 milljarða króna í lok síðasta rekstrarárs, voru settar að veði til tryggingar á skuldum móðurfélagsins. Þá var eigið fé fimm milljarðar. Skuldabréf móðurfélagsins er til fjögurra ára fyrir 1.250 milljónir norskra króna að hámarki, andvirði tæplega tuttugu milljarða króna, auk 15 milljón dollara, tæplega 1,9 milljarðar króna, yfirdráttar.

Í stað ábyrgðarinnar og veðsetningarinnar fékk Stofnfiskur endurgjald frá móðurfélaginu í formi aðgangs að sölu- og markaðskerfum þess erlendis. Í málinu lá fyrir sérfræðiskýrsla endurskoðanda en að hans mati var það endurgjald jafn mikils virði og ábyrgðin sem félagið tók á sig. Að mati héraðsdóms, þar sem Stofnfiskur var sýknað af kröfu hluthafa síns, hafði ekkert komið fram í málinu sem hnekkti gildi skýrslunnar og því hélt ákvörðun hluthafafundar.

Ljóst er að endanlegur dómur í málinu kann að hafa nokkur áhrif á viðskiptalífið en um er að ræða fyrsta málið þar sem reynir á gildi 95. gr. a. hlutafélaganna í tengslum við ábyrgðir eða veðsetningar vegna skuldbindinga móðurfélags. Guðbjörg Helga Hjartardóttir, einn eigenda Logos, og Fannar Freyr Ívarsson, lögmaður á sömu stofu, bentu á í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í liðnum mánuði að niðurstaða í málinu kynni að hafa umtalsverð áhrif á bæði hluthafa og lánveitendur.