Almennir stofnfjárhafar í Sparisjóði Skagafjarðar fóru margítrekað fram á það við Fjármálaeftirlitið (FME) að það hlutaðist til um að farið yrði að lögum í aðdraganda yfirtöku Sparisjóðs Mýrasýslu og tengdra aðila á Sparisjóði Skagafjarðar.

Þá var margsinnis óskað eftir því að FME færi ofan í gjörninga manna er að yfirtökunni stóðu í ljósi alvarlegra og rökstuddra athugasemda um meint ólögmæti þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu hóps almennra stofnfjáreigenda í Sparisjóði Skagafjarðar í dag.

Þar segir að jafnframt hafi verið óskað eftir því við viðskiptaráðherra að hann beitti sér fyrir því að FME rannsakaði málið og svaraði erindum og fyrirspurnum sem til þess hafði verið beint.

„Fyrstu viðbrögð bárust hinsvegar ekki fyrr en 7 mánuðum eftir yfirtökuna í formi staðfestingar á samruna sparisjóðanna,“ segir í tilkynningunni.

„Enn er ósvarað fjölda fyrirspurna og alvarlegra athugasemda sem beint hefur verið til FME er varða lögmæti samrunaferlisins og meðferðar stofnfjárhluta og lögmæti aðalfundar sjóðsins. Vitneskja um þá atburði sem verið hafa að gerast á undanförnum  mánuðum og misserum og tengjast Sparisjóði Mýrasýslu knýja enn frekar á að málið í heild verði rannsakað.“

Þá segir hópurinn það koma úr hörðustu átt að sú opinbera eftirlitsstofnun sem á að gæta þess að lögum sé framfylgt, vísi einstaklingum sem telja á sér brotið á dómstóla í stað þess að bregðast við og rannsaka þær ábendingar sem því berast.

„Í því ástandi sem myndast hefur á fjármálamarkaði eru almenningur og smærri fjárfestar nauðbeygðir til að leggja eigur sínar undir ef þeir vilja fá varið rétt sinn fyrir dómstólum og koma jafnvel að orðnum hlut þó þeir hafi sigur vegna þess tíma sem það tekur að fá fram niðurstöðu,“ segir í tilkynningunni.

„Almennir stofnfjárhafar í Skagafirði kanna því allar mögulegar leiðir til að verja eigur sínar.“

Hópurinn segir yfirlýsingu Fjármálaeftirlitsins um málið nú gera ekki annað en staðfesta nauðsyn þess að farið verði ofan í vinnubrögð og aðgerðaleysi þeirra stofnanna sem sinna eiga eftirlitshlutverki á fjármálamarkaði.

Undir yfirlýsinguna skrifa:

Gunnar Rögnvaldsson, Sigurður Guðmundsson, Sverrir Magnússon, Gísli Árnason, Valgeir Bjarnason, Sigurður Þorsteinsson, Bjarni Jónsson, Agnar H. Gunnarsson, Hörður Jónsson og Gísli Rúnar Jónsson.