Stofnfjáreigendur Sparisjóðs Keflavíkur hafa ákveðið að mynda samtök, en stofnfundur þeirra verður haldinn í dag. Meðal þess sem á að ræða á fundinum er höfðun skaðabótamáls á hendur fyrrverandi stjórnendum sjóðsins fyrir að keyra hann í þrot með gáleysilegum rekstri.

Á mælendaskrá fundarins eru meðal annars meðlimir úr slitastjórn gamla sjóðsins.

„Stofnfjáreigendur eru harmi slegnir yfir falli sjóðsins, í fyrsta lagi vegna mikils fjárhagslegs tjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Í öðru lagi að bankinn hafi hugsanlega misst fjárhagslega getu sína til að styðja áfram dyggilega við atvinnu-, íþrótta-, menningar- og menntamál hér á Suðurnesjum,“ segir meðal annars í tilkynningu frá hinum nýju samtökum.