1,2 milljarða króna lán sem veitt voru til stofnfjárkaupa hjá Sparisjóðnum í Keflavík voru afskrifuð eftir að nýr sparisjóður, SpKef, var reistur á grunni þess gamla. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru lánin afskrifuð í nóvember og desember 2010. Þessar afskriftir eru meðal þess sem hefur rýrt virði eigna SpKef gríðarlega á síðustu misserum en tugmilljarða króna meðgjöf þarf með sjóðnum til að hægt sé að færa innlán hans inn í Landsbankann líkt og samkomulag hefur náðst um.

Niðurfellingar og lánalengingar

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru afskriftirnar tilkomnar vegna þess að ákveðið var að bjóða upp á breytingar á skilmálum lána sem tekin voru til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík fyrir bankahrun. Þær breytingar fólu í sér að lánunum, hvort sem þau voru í íslenskri eða erlendri mynt, var breytt í krónulán til 25 ára á 3,75% vöxtum. Lánin voru síðan færð niður að upphaflegum höfuðstól og vextir miðaðir við útgáfudag.

Hátt í 300 einstaklingum bauðst þessi niðurfærsla og lánalenging. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þessi gjörð hafi kostað SpKef sparisjóð, sem reistur var á rústum Sparisjóðsins í Keflavík, 1,2 milljarða króna enda hafi lánin verið færð yfir til hans á fullu bókfærðu virði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.