Líftækni og hönnunarfyrirtækið Vitrolabs, sem fatahönnuðurinn Ingvar Helgason stofnaði og stýrir, er metið á um 11 milljarða íslenskra króna eftir nýjustu fjármögnunarumferð félagsins. Samkvæmt tilkynningu til bandaríska verðbréfaeftirlitsins SEC sótti Vitrolabs 22 milljónir dollara, um 2,8 milljarða króna í nýtt hlutafé í september. Þá stefnir félagið á að safna 20 milljónum dollara, um 2,6 milljörðum króna, til viðbótar í þessari fjármögnunarumferð.

Vitrolabs vill gera fataframleiðendum kleift að þróa fatnað úr leðri án þess að til þess þurfi að deyða dýr. Félagið hefur undanfarin ár unnið að tilraunum um hvernig rækta megi kúaleður á rannsóknastofu með stofnfrumutækni sem nýtast á fataiðnaðinum.

Framleiðsla Vitrolabs er sögð mun umhverfisvænni en framleiðsla á hefðbundnu leðri þar sem alla jafna um 80% af húð dýranna nýtist ekki. Auk þess sé dýrahald auðlindafrekt, ótæpilegt magn af vatni þurfi í leðurvinnslu og um 50 milljónir dýra séu drepin á ári hverju fyrir leður og tískugeirann. Vöruþróun félagsins hefur vakið nokkra athygli og hefur verið fjallað um það í mörgum af stærstu fjölmiðlum heims.

Notkun á leðri og feldum hefur lengi verið umdeild innan tískuheimsins, út frá bæði siðferðilegum og umhverfissjónarmiðum. Ingvar hefur sagt frá því í viðtölum að hugmyndin sé meðal annars byggð á kvikmyndinni Blade Runner frá árinu 1982, sem er ein af hans uppáhaldskvikmyndum. Í myndinni voru ugla og snákur sköpuð á tilraunastofu. Eftir að hafa lokað fatamerkinu Ostwald Helgason árið 2015 fór hann að velta fyrir sér hvort útfæra mætti hugmyndina.

Ingvar datt niður á meðstofnanda sinn, Dr. Dusko Ilic, eftir leit á Google en Ilic hefur sérhæft sig í stofnfrumurannsóknum og hafði þá ræktað mannshúð á tilraunastofu. Ilic hunsaði fyrstu tölvupóstana sem Ingvar sendi honum þar sem Illic þótti hugmyndin óraunsæ. Hann lét þó að lokum til leiðast og árið 2016 var Vitrolabs stofnað.

Stefna á fjöldaframleiðslu

Félagið tekur frumur úr lifandi kúm sem síðan er ræktað á rannsóknastofu. Vitrolabs segist vera langt komið með prófanir á frumframleiðslu og skoðar nú að opna verksmiðjur í Evrópu undir fjöldaframleiðslu á leðrinu. Það vinnur meðal annars með Harvard háskóla að rannsóknum á langtímanotkun á leðrinu. Vitrolabs hefur einnig uppi áform um að rækta leður úr krókódílum og strútum síðar meir og hugsanlega loðfeldum.

Meðal fjárfesta í Vitrolabs er breska félagið Agronomics, sem sérhæfir sig í fjárfestingu í sambærilegum félögum. Agronomics tilkynnti að félagið hefði fjárfest fyrir 7 milljónir dollara, um milljarð króna í nýjustu fjármögnunarumferð Vitrolabs. Agronomics á eftir það 14,65% hlut í Vitrolabs sem það metur á 12,75 milljónir dollara en félagið hafði áður fjárfest í Vitrolabs. Miðað við það er Vitrolabs í heild um 87 milljóna dollara viðri eða andvirði tæplega 11 milljarða íslenskra króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .