Ari Teitsson, stjórnarformaður Sparisjóðs S-Þingeyinga, leggur til í bréfi til Reykvíkinga, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, að borgaryfirvöld í Reykjavík skoði þann kost að " ... taka höndum saman við borgarbúa um að stofna sparisjóð sem starfi á upphaflegum grundvelli sparisjóðahugsunar." Vísar Ari þar til nýlegra frétta um að borgin kanni hagkvæmni þess að stofna eigin banka til afla lánsfjár með hagkvæmari hætti en áður.

Ari, sem fer fyrir sparisjóði sem hefur ekki þurft á ríkisaðstoð að halda, nefnir að stofnun sparisjóðs með skýr þjónustumarkmið eða yfirtaka á BYR  gæti þjónað best hagsmunum borgarinnar og fyrirtækja og einstaklinga sem starfa í borginni.

Iðnaðarmenn stofnuðu Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis árið 1932 og tilnefndi sveitarfélagið menn í stjórn sjóðsins um langt skeið. Sparisjóður vélstjóra var stofnaður árið 1961 og sameinaðist síðar Sparisjóði Hafnarfjarðar undir merkjum BYRS.