Hildur Eiríksdóttir hóf nýlega störf hjá einkabankaþjónustu Kviku. Hún var áður hjá Nordea Bank í Lúxemborg þar sem nún starfaði sem viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu frá ársbyrjun 2013.

„Ég og maðurinn minn vorum búin að vera úti í Luxemborg í tíu ár, það eru alltaf ákveðin tímamót og þá skoðuðum við hvort við vildum snúa aftur til baka til Íslands eða vera áfram úti. Þegar ég fór að líta í kringum mig hér heima þá var góður vinur minn sem benti mér á að hafa samband við eignastýringuna hér. Eignastýring hjá Kviku byggir á eignastýringunni frá MP banka frá 1999 og er með sterkan hóp þar.“

Töluvert ferli

Hildur flutti upphaflega bú­ferlum til Luxemborgar þegar Íslandsbanki var að setja upp starfsstöð þar, en hún var hluti af hóp sem fór til Lúxemborgar tengt því. Hún er gift Guðmundi Birni Árnasyni, en saman eiga þau þrjú börn. „Þegar ég og mað­urinn minn fluttum út þá áttum við einn strák sem var innan við árs gamall. Ég var fyrst hjá Íslandsbanka og síðan hjá Kaup­þingi. Seinna kom ég að stofnun eignastýringarfyrirtækis með heimild fjármálaeftirlitsins ytra og var þar í um tvö ár þar til það var selt.“ Hildur segir að það hafi verið töluvert ferli að fá samþykki fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg fyrir því að reka eignastýringarfyrirtæki. „Við vorum fimm saman sem sóttum um leyfi. Það var ákveðið ferli sem við þurftum að fara í gegnum, en það tók um það bil sex mánuði. Það var mjög gaman að koma að stofnun fyrirtækis og koma því á legg, það var heilmikill skóli.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.