Árið 2009, þegar þeir voru við það að hefja undirbúning að opnun Fabrikkunnar, voru þeir Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson, betur þekktir sem Simmi og Jói, báðir í dagvinnu. Jóhannes starfaði hjá Landsbankanum en Sigmar hjá Tal, þar sem hann þó lét, að eigin frumkvæði, af störfum eftir umtalsverða erfiðleika hjá fyrirtækinu. Í byrjun árs 2009 var opnun veitingastaðar þó ekki í kortunum.

„Gildismatið breyttist mikið í hruninu,“ segir Sigmar.

„Fram að því hafði maður unnið fyrir peningana sem maður fékk í staðinn fyrir að vinna að því sem maður hafði gaman af því að gera. Maður sætti sig við að gera eitthvað sem maður hafði ekki gaman af, af því að maður hafði það gott launalega. Að lokum hugsaði ég með mér að ég nennti þessu ekki lengur og sagði upp. Ég hafði í raun ekki áhyggjur af því að fá ekki vinnu heldur meira hvað það yrði. Það voru nokkrar hugmyndir sem duttu inn áður en mér tókst að sannfæra Jóa um að hætta í Landsbankanum og stofna saman hamborgarstað. Þetta var auðvitað galin hugmynd. Á þessum tíma voru konurnar okkar ófrískar og ástandið í samfélaginu ekki stöðugt eins og flestir muna.“

Ítarlegt viðtal er við þá Simma og Jóa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.