Stefnt er að stofnun íslensks heilbrigðisklasa en undirbúningur hefur staðið í rúmt ár og hefur Friðfinnur Hermannsson fyrir hönd ráðgjafafyrirtækisins Gekon leitt þá vinnu. Að starfinu komu bæði með fjármagn og þekkingu eftirfarandi aðilar: Grund, Icepharma, Veritas, Frumtök, Össur, Actavis, Alvogen, Læknafélagið, Félag atvinnurekenda og Velferðarráðuneytið.  Einnig kom Nýsköpunarmiðstöð Íslands að þessari vinnu á seinni stigum í samhengi við vinnu NMÍ með Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um heilbrigðistækniklasa og hefur Hannes Ottósson leitt þá vinnu fyrir hönd NMÍ. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Fimmtudaginn 19. júní var haldinn formlegur upphafsfundur samstarfs um íslenskan heilbrigðisklasa í húsnæði Íslandsbanka á Kirkjusandi.  Á fundinn mættu fulltrúar heilbrigðistæknifyrirtækja, fyrirtækja og stofnana í heilbrigðisþjónustu, sprotafyrirtækja í heilbrigðisstarfsemi, stjórnvalda, háskóla, félagasamtaka, fjármálafyrirtækja og endurskoðunarfyrirtækja.

Gekon og NMÍ hafa nú tekið höndum saman um að vinna áfram að framgangi þessa máls með það að markmiði að í lok árs verði tekinn ákvörðun um það hvort að stofnað verði til formlegs heilbrigðisklasa á Íslandi eins og fjölmörg dæmi eru um út um allan heim.  Þá liggi líka fyrir um hvað slíkt samstarf eigi að snúast til framtíðar og hvað þátttakendur í slíku samstarfi ætli að fá út úr því.  Reynslumiklir erlendir ráðgjafar verða fengnir að því að stýra stefnumótunarvinnu samstarfsins á haustmánuðum.

Almennt er fólk sammála um að miklir möguleikar felast í heilbrigðisgeiranum til að skapa ný og spennandi störf fyrir vel menntaða einstaklinga.  Fjöldi nýrra fyrirtækja hefur verið stofnaður á síðustu árum og jafnframt eru á Íslandi gamalgróin og öflug fyrirtæki á heimsvísu.

Ef að við ætlum hins vegar að fullnýta þá möguleika sem að felast í heilbrigðistækni og heilbrigðisþjónustu þá þurfa allir þeir sem að tengjast heilbrigðismálum á Íslandi; stjórnvöld, rannsóknarstofnanir, menntastofnanir, fjármögnunaraðilar og ekki síst fyrirtækin í greininni að taka höndum saman, móta stefnu til framtíðar og innleiða þá stefnu síðan hratt og örugglega.

Á sama tíma verðum við sameiginlega að styðja heilbrigðisþjónustuna í landinu til að þróast og eflast þannig að áfram verði góður árangur þar sterk undirstaða þeirrar ímyndar sem að við ætlum á byggja á og auglýsa í framtíðinni.