Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti í ræðu sinni á Ársfundi landsvirkjunar að unnið væri að stofnun svokallaðs þjóðarsjóðs Íslendinga. Sjóðurinn kæmi til með að taka við arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum í eigu Íslendinga. Ársfundur Landsvirkjunar stendur nú yfir en horfa má á hann hér.

Hlutverk sjóðsins væri að byggja upp eins konar varasjóð fyrir þjóðina, eins og þekkist í Noregi, sem hægt væri að nýta í niðursveiflum, gæti bætt lánshæfi ríkissjóðs og ýtti undir kynslóðajöfnun. Forsvarsmenn annarra flokka hafa sýnt þessari hugmynd jákvæð viðbrögð, en Bjarni hefur kynnt hana fyrir stjórnarandstöðunni.

Rita þyrfti mjög skýrar reglur um hvernig sjóðurinn yrði notaður, og samstaða þyrfti að ríkja um tilgang hans og notkunarmöguleika. Þar eð aldur þjóðarinnar fer hækkandi og útgjöld til velferðarmála í takt þyrfti að koma sjóðnum á laggirnar helst sem allra fyrst.

Frumvarp um slíkan sjóð gæti verið tilbúið næsta vetur, að sögn Bjarna, sem segir að verkefnið verði að lifa ríkisstjórnir og vera til langs tíma, ef það á að ná markmiði sínu eins og ætla skyldi. Hægt væri að láta sjóðinn fá myndarlegt stofnframlag, sagði Bjarni, til dæmis í formi verðbréfa í orkufyrirtækjunum eða annað af því tagi.