Nær engar skemmdir urðu á flutningsvirkjum Landnets í nýliðnum jarðskjálftum á Suðurlandi að því er eftirlit á vegum fyrirtækisins hefur leitt í ljós.

Starfsmenn þess fóru með flutningslínum, þar á meðal Búrfellslínum og Sogslínu og könnuðu hvort flutningslínur hefðu skemmst þannig að hætta stafaði af. Einkum var lögð áhersla á að  skoða hugsanlega hreyfingu á undirstöðum og stögun mastra.

Við skoðunina  kom í ljós að á þremur turnum í Búrfellslínu 2 undir Ingólfsfjalli og einum  turni austur í Flóa hafa stög slaknað talsvert og verður unnið að lagfæringum í vikunni.

Að öðru leyti komu ekki fram alvarlega skemmdir sem gefur vísbendingar um að mannvirki Landsnets hafi staðist jarðskjálftana vel. Að því er fram kemur í upplýsingum frá fyrirtækinu er þó ekki unnt að útiloka að frekari skemmdir kunni að koma fram síðar.

Styrkingar sönnuðu að líkum gildi sitt

Jafnframt því að Landsnet kannaði flutningskerfið lét Landsvirkjun kanna ástand mannvirkja sinna á Suðurlandi í kjölfar skjálftanna, enda eru mörg þeirra nærri upptökum skjálftanna, t.d. er Írafossstöð staðsett 10 km frá upptökum skjálftans, Ljósafossstöð 12 km, Steingímsstöð 20 km og Búrfellsstöð 60 km frá upptökunum.

Athugunin leiddi í ljós að engar skemmdir hefðu orðið á mannvirkjunum. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun voru fyrir um áratug framkvæmdar  allumfangsmiklar jarðskjálftastyrkingar á Sogsvirkjunum til að mæta nútímakröfum.

„Líklegt má telja að þessar styrkingar hafi sannað gildi sitt í þessum skjálfta og komið í veg fyrir hugsanlegt tjón á mannvirkjum,” segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.