Stoðir hafa andmælt áminningu Kauphallarinnar, sem kynnt var í dag og telja hana ekki rökstudda. Fyrir liggur að Stoðir hafa verið í greiðslustöðvun og nauðasamningaferli sl. 8 mánuði. Í tilkynningu félagsins kemur fram að hið eina sem skipt hefur máli síðustu mánuðina varðandi mat á verðmæti skuldabréfa, útgefnum af Stoðum, er hvort af fyrirhuguðum nauðasamningum félagsins yrði eða ekki.

Í tilkynningu segir að mMarkaðsaðilar og kröfuhafar, þ.m.t. eigendur skuldabréfa sem skráð eru í Kauphöllinni, hafa haft upplýsingar um það ferli enda hafa verið birtar tilkynningar jafnóðum um þróun mála, síðast í gærmorgun, þegar tilkynnt var að nauðasamningar Stoða hefðu verið samþykktir af kröfuhöfum með öllum greiddum atkvæðum.

Stoðir benda einnig á að þann 3. apríl 2009 sl. birtu Stoðir fjárhagsupplýsingar í Kauphöllinni um mat á eignum og skuldum félagsins í lok mars 2009, í tengslum við heimild Stoða til nauðasamningsumleitana. Stoðir telja því að félagið hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni í samræmi við reglur Kauphallarinnar og ennfremur að Stoðir hafi verið í fullum rétti til að nýta sér undanþágu frá birtingu ársreiknings fyrir lok aprílmánaðar.