Héraðsdómur Reykjavíkur veitti í dag Stoðum (áður FL Group) heimild til að leita nauðasamninga við kröfuhafa sína.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en Þorsteinn Einarsson hrl. hjá Forum lögmönnum hefur verið skipaður umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum félagsins.

Verðmæti eigna Stoða er nú talið nema um 25-30% af andvirði skulda sem nú eru áætlaðar um 287 milljarðar króna og hafa hækkað um 55 milljarða króna síðastliðið hálft ár, vegna gengisbreytinga og áfallinna vaxta.

Í tilkynningu frá félaginu fyrir helgi kom fram að lánardrottnar félagsins, sem fara með 86% af fjárhæð krafna á hendur félaginu, styðja að Stoðir vinni áfram að fjárhagslegri endurskipulagningu sem meðal annars felur í sér að félaginu verði veitt heimild til að leita nauðasamninga. Gert er ráð fyrir núverandi hlutafé félagsins verði afskrifað að öllu leyti og kröfuhafar félagsins verði eigendur alls hlutafjár í Stoðum.