Fasteignafélagið Stoðir samþykkti í dag að kaupa danska fasteignafélagið Atlas Ejendomme A/S, segir í tilkynningu á félaginu. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það í tæpir þrír milljarðar danskra króna, eða um 30 milljarðar íslenskra króna.

"Þetta eru líklega stærstu fasteignakaup Íslandssögunnar", segir Kristín Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Stoða. ?Danska ríkið er helsti leigutaki Atlas Ejendomme en hið opinbera leigir 22% þeirra rúmlega 150.000 fermetra sem eru í eigu félagsins. Af því húsnæði er 82 % leigt undir skrifstofur en 14% undir verslanir, veitingastaði og hótel," bætti Kristín við.

Jónas Þór Þorvaldsson er framkvæmdastjóri Stoða en félagið nærri tvöfaldast að stærð með þessum kaupum að hans sögn.

"Við erum mjög ánægð með þessi kaup því fasteignir Atlas eru góðar. Þetta er fyrsta stóra fjárfesting Stoða utan Íslands og þess vegna lögðum við sérstaka áherslu á að eignasamsetningin hæfði þörfum okkar. Um er að ræða mjög eftirsóttar eignir á Kaupmannahafnarsvæðinu. Við gerum okkur grein fyrir að Kaupmannahafnarbúar líta á margar þessara bygginga sem gersemar með mikið sögulegt gildi fyrir miðborg Kaupmannahafnar. Þess vegna ætlum við að leggja okkur fram um að standa undir því góða orðspori sem Atlas Ejendomme hefur aflað sér," sagði Jónas.

Samið hefur verið um að meirihluti starfsfólksins haldi áfram störfum í nýja fyrirtækinu en sumir fylgja þó Mikael Goldschmidt yfir í fyrirtækið M. Goldschmidt Holding A/S.

Fasteignafélagið Stoðir hf. er stærsta fasteignafélag Íslands og á og rekur um 260.0000 fermetra húsnæði. Rúmlega 97 % þess eru í útleigu. Hjá fyrirtækinu leigja rúmlega 100 leigjendur en meðal helstu viðskiptavina eru smásölufyrirtækið Hagar, Icelandair-hótel og fasteignasvið íslenska ríkisins. Helstu hluthafar í Stoðum eru: Baugur Group 49% Kaupþing Banki (KB-Banki hf) 22% , Ingibjörg Pálmadóttir og Eignarhaldsfélagið ISP ehf. 18%.

Atlas Ejendomme A/S var stofnað þann 21. desember 1979. Meðal eigna má nefna 34 byggingar sem standa miðsvæðis og leigðar eru út. Einkum er um að ræða atvinnuhúsnæði (85 af hundraði). 77 af hundraði leigutekna eru af eignum í miðborg Kaupmannahafnar. 82 af hundraði teknanna eru af skrifstofuhúsnæði. Fyrirtækið á alls yfir 150.000 fermetra húsnæði. Danska ríkið er helsti leigjandi fyrirtækisins. Yfir 97% húsnæðisins eru í leigu þegar undanskildar eru eignir sem verið er að endurnýja.