Stoðir hf., sem nýlega keypti danska fasteignafélagið Keops, hefur í kjölfarið á þeim viðskiptum ákveðið að veita Sjóðnum fyrir danskt-íslenskt samstarf gjöf að upphæð ein milljón danskar krónur eða um tólf milljónir íslenskra króna. Gjöfin var afhent, Bent A. Koch formanni sjóðsins, við hátíðlegt tækifæri í íslenska sendiráðinu síðasta föstudag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Af þessu tilefni segir Kristín Jóhannesdóttir stjórnarformaður Stoða hf.: "Ísland og Danmörk hafa um aldir verið bundin þéttum menningarlegum böndum og þessi bönd viljum við hjá Stoðum styrkja enn frekar. Við lítum á þetta sem skyldu okkar, þar sem við komum frá landi þar sem menning hefur ávallt skipað stóran sess og þar sem við teljum að menning og viðskipti eigi að fara hönd í hönd".

Bent A. Koch segir: "Það er með mikilli gleði sem Sjóðurinn fyrir danskt-íslenskt samstarf tekur á móti gjöf Stoða. Á hverju ári verðum við að vísa frá fjölda umsókna vegna smæðar sjóðsins. T.d. frá skólum, sem vilja senda nemendur í námsferðir. Með gjöfinni verðum við einnig betur í stakk búin til að koma við móts við þann fjölda íslenskra og danskra listamanna sem biðja um stuðning okkar við verk sín."

Sjóðurinn fyrir danskt-íslenskt samstarf hefur það að leiðarljósi að auka skilning og samstarf milli Íslands og Danmerkur á menningarlega sviðinu sem og öðrum. Sjóðnum er stýrt af stjórn sem samstarfsráðherra Norðurlanda skipar. Eigið fé sjóðsins er u.þ.b. 5,5 milljónir danskra króna.

Stoðir hf. er eftir kaupin á Keops eitt stærsta fasteignafélag Norðurlanda með fasteignir í Danmörku, Íslandi, Svíþjóð og Finnland að virði u.þ.b. 33 milljarða danskra króna. Félagið leigir út hátt í 2,8 milljónir fermetra í þessum fjórum löndum og er fjöldi leigjanda rúmlega 3,800. Hundrað þrjátíu og þrír starfsmenn vinna hjá fyrirtækinu.