Stoðir Invest, sem eiga tæplega helmingshlut í fríblaðinu Nyhedsavisen á móti fjárfestinum Morten Lund, munu fella niður hluta fjögurra milljarða skuldar blaðsins við félagið. Þetta hermir heimildarmaður Viðskiptablaðsins sem er vel kunnugur málefnum danska blaðsins.

Stoðir Invest eiga fjögurra milljarða skuldabréf á hendur Nyhedsavisen, eða sem nemur 250 milljónum danskra króna. Unnið er hörðum höndum að því að fjármagna útgáfu blaðsins fyrir mánudaginn, en þá verður að skila inn ársreikningi útgáfunnar.

Náist það ekki munu endurskoðendur ekki skrifa undir ársreikninginn og Nyhedsavisen tekið til gjaldþrotaskipta.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að niðurfelling hluta skuldarinnar hafi verið nauðsynleg forsenda þess að nýjir fjárfestar, sem hafa verið í viðræðum við Morten Lund, kæmu inn í verkefnið.