Morten Lund, aðaleigandi Nyhedsavisen, hefur gengið illa að fá nýja fjárfesta að blaðinu.

Fullyrt er að Stoðir Invest hafi neitað að falla frá fjögurra milljarða kröfu sinni á hendur Nyhedsavisen og það leggist ekki vel í hugsanlega fjárfesta.

Nyhedsavisen hefur að vísu náð því markmiði að verða mest lesna dagblað Danmerkur en það hefur kostað eigendur þess, Baug Group og síðar Morten Lund, gríðarlegt fé að ná þeim árangri; danskir fjölmiðlar skjóta á að herkostnaður eigenda Nyhedsavisen sé nú farinn að nálgast tíu milljarða íslenskra króna en langstærsta hluta þess fjár hefur Baugur Group lagt fram, væntanlega á bilinu 6-8 milljarða íslenskra króna.

Það sem gerir málið þó enn alvarlegra er að Nyhedsavisen heldur enn áfram að tapa fé og sér alls ekki fyrir endann á því; í Børsen er því þannig haldið fram að Nyhedsavisen tapi eins og er um 240 milljónum íslenskra króna í hverjum mánuði. Nyhedsavisen, sem er í eigu danska fjárfestisins Mortens Lund (51%) og Stoða Invest (49%) – sem er í eigu helstu eigenda Baugs – vantar því enn nauðsynlega fjármagn þótt ekki séu nema um tveir mánuðir frá því að eigendur þess lögðu því síðast til fé.

Talið er að Nyhedsavisen þurfi á bilinu 1,6 til 3 milljarða íslenskra króna til þess að halda úti rekstri blaðsins út þetta ár en í reynd mun meira fé til þess að komast í ásættanlega stöðu.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .