Haft er eftir Lars Lindstrøm, fjármálastjóra útgáfufélags Nyhedsavisen, í dönskum fjölmiðlum í dag að stefnt sé að því að skrá félagið í dönsku kauphöllina. Sömuleiðis er upplýst að íslensku eigendurnir, Stoðir Invest, muni minnka hlut sinn niður í 15%, með innkomu nýs fjárfestis. Nú eiga Stoðir Invest 49% í útgáfufélagi Nyhedavisen.

Í síðustu viku var boðað að samkomuleg hefði náðst við nýjan fjárfesti að Nyhedsavisen.  Enn hefur ekki verið upplýst hver hinn nýi fjárfestir er. Það mun ekki fást uppgefið fyrr en samningar hafa endanlega verið undirritaðir. Í dönskum fjölmiðlum er þó talið að um erlendan aðila sé að ræða.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu hefur Morten Lund, athafnamaður og aðaleigandi Nyhedsavisen, leitað með logandi ljósi að fjármagni svo tryggja mætti framtíð blaðsins. Upplýst var að það hefði tekist í síðustu viku. Sjálfur hyggst Lund leggja nokkrar milljónir danskra króna til viðbótar í púkkið.

Búist er við því að breytingar á eignarhaldi blaðsins verði kynntar fljótlega.