Fasteignafélagið Stoðir, sem er hluti af fyrirtækjasamstæðu Baugs, hefur með milligöngu danska félagsins Atlas Ejendomme II A/S skrifað undir bindandi kaup- og sölusamning við M-Holding og I-Holding, Holdingselskabet ILLUM og Magasin Ejendomme, til þess að eignast sex stórar fasteignir í Danmörku, segir í tilkynningu. Í kaupunum fylgja með fimm smásölueiningar og ein vörugeymsla.

"Ég er hæstánægð með að við skyldum ganga frá þessum spennandi fjárfestingum. Við höfum verið að skoða þessar fasteignir í töluverðan tíma og kaupin eru mikilvægt skref í skilgreindri stefnu okkar, sem er að verða stór eigandi verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á besta stað í Danmörku. Við höfum mikla trú á hinum danska fasteignamarkaði og munum halda áfram að leita að tækifærum til að styrkja eignasafn okkar enn frekar," segir Sigríður Hrefna, framkvæmdastjóri Atlas Ejendomme.

Fasteignirnar sem um ræðir eru verslunarhúsnæði ILLUM á Strikinu í Kaupmannahöfn og á McDonalds-horninu nálægt ILLUM, húsnæði Magasin í Lyngby, Óðinsvé og Árósum, sem og vöruhúsnæðisins við Jernholmen í Hvidovre.

Stoðir eru stærsta fasteignafélag á Íslandi sem sérhæfir sig í verslunar- og skrifstofuhúsnæði og eru eignir félagsins metnar á 1,7 milljarða evra. Fasteignir Stoða eru samtals 650.000 fermetrar að stærð og eru leigjendur fyrirtækisins um eitt þúsund talsins.

Dönsku dótturfyrirtæki Stoða eru tvö, Atlas Ejendomme A/S og Atlas Ejendomme II A/S, og eru þau uppbyggð samkvæmt viðskiptalíkani Stoða á Íslandi. Atlas Ejendomme A/S mun þess vegna eiga og hafa umsjón með dönsku skrifstofunni en Atlas Ejendomme II A/S mun eiga og hafa umsjón með verslunarhúsnæðinu.

Baugur er stærsti hluthafinn í dönsku verslununum ILLUM og Magasin du Nord.