Stoðir eignarhaldsfélag (áður FL Group) hefur selt Teymi bréf í Alfesca. Auk þess fjármagna Stoðir kaupin á bréfunum, að því er Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis sagði á afkomufundi í dag.

Teymi hyggst nýta bréfin í Alfesca til þess að greiða þeim hluthöfum fyrir, sem kjósa að selja í Teymi við afskráningu á hlutabréfmarkað. Það var tilkynnt í morgun.

80% hluthafa Teymis hafa tilkynnt um að þeir vilji vera áfram hluthafar.

Árni Pétur sagði aðgang að fjármagni takmarkaðan auk þess sem það væri dýrt um þessar stundir.

Árni Pétur viðurkenndi fúslega að helst hefði hann viljað leysa hluthafa út með reiðufé en þess sé ekki kostur  í ljósa aðstæðna á fjármálamörkuðum. Því var farin þessi leið.

Hann sagði Alfesca gott rekstrarfélag.

Fjölskylda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er stærsti hluthafi Teymis og Stoða. Fons, fjárfestingafélag Pálma Haraldssonar, er sömuleiðis með umfangsmiklar stöður í báðum félögunum.