Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri fasteignafélagsins Landic Properties, segir í samtali við Viðskiptablaðið að greiðslustöðvun Stoða, sem á 40% hlut í fasteignafélaginu, hafi ekki áhrif  rekstur félagsins til skemmri tíma litið. „Við höldum áfram okkar starfsemi,“ segir hann.

Stoðir hafa ekki verið að leggja Landic Properties til fjármögnun, að sögn Skarphéðins Bergs, og félagið er ekki háð afkomu Stoða eða starfsemi þess.

Í morgun var tilkynnt um björgunaraðgerðir íslenskra stjórnarvalda á hendur Glitnis en þau hafa keypt 75% hlut í Glitni á 600 milljónir evra. Skömmu síðar tilkynnti Stoðir, kjölfestu fjárfestir Glitnis, um að það hafi óskað eftir greiðslustöðvun.

„Fyrir okkur breytir þetta ekki neinu til skemmri tíma. Okkar stærsti hluthafi er í vandræðum. Við höfum ekkert um það að segja. Og við vitum ekkert hvað kemur út úr því,“ segir hann.

Það eru umtalsverð verðmæti í hlutabréfum Stoða í Landic Properties og unnið verður úr því á næstu vikum hvernig farið verður með þau, að sögn Skarphéðins Bergs.

Hann segist ekki vita hvernig það muni fara. Og hafi ekkert um það að segja.