Stoðir (áður FL Group) hafa óskað eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til að leita nauðasamninga við kröfuhafa sína. Verðmæti eigna Stoða er nú talið nema um 25-30% af andvirði skulda sem nú eru áætlaðar um 287 milljarðar króna og hafa hækkað um 55 milljarða króna síðastliðið hálft ár, vegna gengisbreytinga og áfallinna vaxta.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að lánardrottnar félagsins, sem fara með 86% af fjárhæð krafna á hendur félaginu, styðja að Stoðir vinni áfram að fjárhagslegri endurskipulagningu sem meðal annars felur í sér að félaginu verði veitt heimild til að leita nauðasamninga. Gert er ráð fyrir núverandi hlutafé félagsins verði afskrifað að öllu leyti og kröfuhafar félagsins verði eigendur alls hlutafjár í Stoðum.

Stoðir hafa verið í greiðslustöðvun síðastliðna sex mánuði, síðan stærsta eign félagins, 32% eignarhlutur í Glitni að verðmæti 75 milljarða króna, varð verðlaus. Eignir Stoða eru nú metnar á um 70-80 milljarða króna og hafa lækkað um u.þ.b. 160 milljarða króna sl. sex mánuði. Skuldir Stoða eru nú áætlaðar um 287 milljarðar króna og hafa hækkað um 55 milljarða króna síðastliðið hálft ár, vegna gengisbreytinga og áfallinna vaxta. Verðmæti eigna Stoða er því nú talið nema um 25-30% af andvirði skulda.

Í byrjun febrúar 2009 var myndað svokallað kröfuhafaráð Stoða sem hefur, ásamt stjórn og starfsmönnum Stoða, unnið að málefnum félagsins með hagsmuni lánardrottna að leiðarljósi. Í kröfuhafaráðinu sitja fulltrúar stærstu kröfuhafa félagsins, þ.e. fulltrúar frá Nýja Kaupþingi, Gamla Glitni, Landsbanka NBI, fulltrúi erlendra lánveitanda að sambankaláni og fulltrúi ótryggðra kröfuhafa segir í tikynningu.