Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, áður FL Group, segir kaupin á kjölfestuhlut í Baugi Group vera eru mikilvægt skref fyrir félagið og til þess fallin að styrkja það verulega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Hann segir Baug hafa byggt upp sterka stöðu í mörgum þekktum erlendum vörumerkjum í smásöluverslun, rekstur þeirra félaga gangi vel og Stoðir hafi mikla trú á framtíð Baugs.

„Hlutafjáraukning sem á sér stað samhliða þessum viðskiptum styrkir einnig eiginfjárgrunn félagsins verulega en það hefur einmitt verið meginviðfangsefni okkar frá því að endurskipulagning félagsins hófst í desember 2007,“ segir Jón.

„Okkur hefur þegar orðið vel ágengt og sjáum batamerki í rekstri félagsins þrátt fyrir mikla ágjöf á fjármálamörkuðum. Við munum halda áfram uppbyggingarstarfinu - og nú undir nýjum merkjum og nafni. Stoðir ríma vel við mikilvægasta hlutverk okkar, sem er að styðja og efla kjölfestufjárfestingar okkar í Glitni, TM, Landic Property og Baugi.”