Fasteignafélagið Stoðir, sem er að hluta til í eigu Baugs, hefur tekið yfir fasteignafélagið Löngustétt ehf., samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Morgunblaðið segir að verðmæti eignasafns Löngustéttar sé ekki undir 6-6,5 milljörðum króna, en kaupverðið var ekki gefið upp.

Í frétt blaðsins segir að eftir viðskiptin nemur eignasafn Stoða á Íslandi yfir 300 þúsund fermetrum, en félagið á einnig yfir 150 þúsund fermetra af fasteignum í Danmörku í gegnum danska félagið Atlas.

Meðal fasteigna Löngustéttar í Reykjavík eru Laugavegur 182, aðsetur Kauphallar Íslands, Austurstræti 8, sem Alþingi Íslands leigir undir skrifstofur þingmanna, og Pósthússtræti 8, segir í frétt Morgunblaðsins.

Fyrirtækið var stofnað árið 1998 og var í eigu Guðmundar I. Jónssonar og Þorláks Traustasonar.