Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland tók stökk í viðskiptum dagsins og hækkaði um 2,76% svo hún endaði í 1.691,83 stigum. Nam heildarvelta á hlutabréfamarkaði 3,8 milljörðum króna.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði einnig eilítið eða um 0,03% og endaði hún í 1.224,50 stigum. Heildarveltan með skuldabréf nam tæplega 4,4 milljörðum króna.

Icelandair og Marel hækkuðu mest

Mesta hækkunin sem og mestu viðskiptin voru á bréfum Icelandair Group. Nam hækkunin 4,28% í 985 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 24,35 krónur.

Næst mesta hækkunin var á bréfum Marel hf. sem hækkuðu um 3,38% í tæplega 350 milljón króna viðskiptum og enduðu bréf félagsins á að kosta 245 krónur.

Engin bréf í kauphöllinni lækkuðu í verði, en bréf í HB Granda stóðu í stað í 100 milljón króna viðskiptum. Fást bréf félagsins því enn á 27,55 krónur.