*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 12. ágúst 2018 15:04

Stokka upp kerfið og auka stuðning

Innanlandsflug nýtur um 2 milljarða stuðnings árlega, en Samgönguráðherra telur líklegt að auka þurfi fjárveitingar til málaflokksins.

Júlíus Þór Halldórsson
Sigurður Ingi Jóhannsson, Samgönguráðherra, hyggst stokka upp opinberan stuðning við innanlandsflugið.
Haraldur Guðjónsson

Innanlandsflug nýtur um 2 milljarða króna opinbers stuðnings árlega. Hann felst meðal annars í þjónustusamningum við flugfélög um að sinna ákveðnum flugleiðum og samningum við Isavia ohf. um rekstur flugvalla á landsbyggðinni.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir hins vegar þörf á uppstokkun kerfisins, og hefur meðal annars talað fyrir hinni svokölluðu „skosku leið“, sem felst í niðurgreiðslu flugfargjalda landsbyggðarbúa. Markmiðið segir hann vera að innanlandsflugið verði hluti af almenningssamgöngukerfinu.

„Það er margt sem bendir til þess að sá stuðningur sem við höfum verið með hafi ekki nýst til að ná fram lækkun á verðmiðanum og hvata til að nýta flugið. Þetta þarf að vera samtvinnað, allt almenningssamgöngukerfið þarf að vera nýtanlegt, og helst vildi ég að það væri þannig að þú gætir keypt miða og óháð flutningsleiðinni komist á leiðarenda þótt þú þurfir jafnvel að nota þrennar mismunandi flutningsleiðir.“ segir Sigurður.

Jón Gunnarsson, forveri Sigurðar, skipaði í þessum tilgangi nefnd um framtíð innanlandsflugsins, og Sigurður býst við að hún skili af sér á næstu vikum eða mánuðum, en hún hefur meðal annars verið að skoða skosku leiðina og aðrar útfærslur. Auk uppstokkunar kerfisins segir Sigurður þörf á um 300- 500 milljónum aukalega á ári til að sinna viðhaldinu á innanlandsflugvöllunum vel. Hann telur því líklegt að auka þurfi opinberar fjárveitingar til málaflokksins. „Maður sér fyrir sér að við getum stokkað svolítið upp kerfið eins og það er, nýtt eitthvað af þessu, en án efa þurfum við eitthvað að bæta í.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.