Bruggsmiðjan The Brothers Brewery hefur sótt talsvert í sig veðrið síðastliðin misseri og komst almennilega á kortið þegar fyrirtækið framleiddi EM bjórinn Heimi, til heiðurs landsliðsþjálfaranum Heimi Hallgrímssyni og annan bjór til heiðurs sjómönnum Vestmannaeyja, sem ber nafnið Togari. „Við erum mjög stoltir af því að vera úr Eyjum,“ segir Jóhann Guðmundsson, einn af forsprökkum fyrirtækisins.

„Við erum að heiðra hetjur Vestmannaeyja. Við heiðruðum Heimi Hallgrímsson landsliðsþjálfara þegar EM var í gangi. Þrasi var gerður út af kosningunum og pælingum sem voru í kringum það. Við viljum ekkert endilega fara einhverjar hefðbundnar leið- ir. Við höfum verið að skoða hvað við getum gert til að skipa okkur sérstöðu. Togari fór á bjórhátíð- ina á Hólum síðasta sumar og þar var hann valinn besti bjórinn sem var fáanlegur á Hólum það árið. Á þeim tíma voru Borg brugghús, Gæðingur, Ölvisholt, Kaldi, Ölgerðin og Vífilfell á svæðinu. Öll stærstu nöfnin voru á hátíðinni. Til að mynda var Garún á staðnum sem er nákvæmlega sama tegund af bjór, Imperial Stout,“ segir Jóhann.

Jóhann segir að bruggið hafi verið hálfgert „fíflerí“ til að byrja með en í kjölfarið hafi vinur þeirra sem á staðinn Einsa Kalda í Eyjum smakkað bjórinn og vildi selja hann. „Við fengum leyfin svo í jan- úar 2016 og gátum þá framleitt 50 lítra af bjór í einu. Þá var okkar ætlun að framleiða 100 lítra á mánuði, selja til Einsa Kalda og hafa svolítið gaman af þessu,“ tekur Jóhann bruggmeistari fram.

Embættismenn vissu ekki hvernig þeir ættu að haga sér

Það var ekki gengið að því að sækja um leyfi fyrir nýrri bruggsmiðju, enda gerist það ekki á hverjum degi. „Það vissi enginn í embættismannakerfinu hvert við ættum að fara. Það er ekki mjög algengt að fólk sæki um leyfi til að brugga bjór. Það eru ekki margir í þessum bransa, í einhvers konar handverksframleiða það er að segja. Það eru þó komin fyrirtæki núna á borð við Reykjavík Distillery. Það eru engar tölvur sem búa til bjórinn hjá okkur, eins og hjá sumum öðrum,“ segir Jóhann.

Boltinn hefur aldeilis farið að rúlla hjá „bræðrunum“ og segir Jóhann að viðtökurnar hafi verið frábærar. „Við höfum farið úr 50 lítrum upp í 150 lítra. Þeir bjórar hafa verið í sölu á Microbar, Bjórgarðinum og svo erum við með húsbjórinn á Public House, við höfum einnig verið með bjórinn okkar á Kalda bar og Ölhúsinu – Ölstofu Hafnarfjarðar. Eftirspurnin hefur verið vaxandi með hverjum einasta mánuði á seinasta ári.

Við tókum ákvörðun um að stækka enn frekar við okkur ný- lega og kaupa brugghús sem getur framleitt 500 lítra í einu og þar af leiðandi allt að 70 þúsund lítra á ári. Við áætlum að framleiða 30 þúsund lítra á þessu ári.“

„Drekka bjór til að njóta“

Að sögn Jóhanns er bjórmenningin á Íslandi að breytast. „Ég held að það sé mun meiri eftirspurn eftir handverksbjór (e. craft beer),“ tekur bruggarinn fram. „Maður sér það á stöðum eins og Micro bar, Bjórgarðinum og Skúla craftbar, sem selja mjög mikinn handverksbjór. Þetta eru allt bjórar sem við myndum kalla óhefðbundna bjóra. Það er miklu meiri vakning fyrir því að drekka bjór til að njóta hans. Það var mjög algengt að fólk drykki bara bjór til að drekka bjór. Bjórar eru orðnir bragðmeiri og sterkari. Það er bara eðlilegt að fólk vilji fara í einhverja góða bjóra. Svo er líka annað í þessu; bjór með mat hentar oft betur en rauðvín og hvítvín,“ bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .