Persónuvernd stendur á tímamótum um þessar mundir í umhverfi gríðarlegra tækniframfara síðustu ára þar sem upplýsingaöflun og vinnsla persónuupplýsinga er orðin meiri en nokkru sinni fyrr. Til að bregðast við breyttum raunveruleika hefur Evrópusambandið samþykkt nýja reglugerð um persónuvernd sem kemur til með að leysa fyrri persónuverndarreglur af hólmi, en áætlanir gera ráð fyrir að breytingarnar verði lögfestar hér á landi í maí á næsta ári.

Að sögn forstjóra Persónuverndar, Helgu Þórisdóttur, er hér um að ræða umfangsmiklar breytingar sem fyrirtæki geti ekki litið framhjá, enda felur löggjöfin í sér fleiri og strangari skuldbindingar fyrir fyrirtæki og stofnanir en áður. Þar má meðal annars nefna skyldu til ráðningar persónuverndarfulltrúa, ritun auðskiljanlegrar persónuverndarstefnu hjá hverju fyrirtæki og stofnun og mun Persónuvernd koma til með að geta beitt sektum gagnvart þeim aðilum sem ekki uppfylla skyldur sínar.

1.865 mál á síðasta ári

Nú gæti einhver spurt hvort þessar breytingar eigi sér stað of seint. Séð utan frá þá fær maður jafnvel á tilfinninguna að persónuvernd sé hreinlega svið sem hafi gleymst í öllum hraðanum undanfarin ár, er eitthvað til í því að þínu mati?

„Já og nei – Persónuvernd tók við af Tölvunefnd árið 2000 og síðan þá hefur verið mikill stígandi í fjölda mála sem berast stofnuninni. Að sama skapi hefur starfsmannafjöldinn ekki þróast með sama hætti Árið 2002 voru málin um 600 sem bárust Persónuvernd, þeim hefur hins vegar fjölgað ár frá ári og á síðasta ári fengum við 1.865 mál inn á okkar borð – sum stór og önnur minni, og undanfarið hafa starfsmennirnir verið sjö talsins.“

Af lýsingum þínum að dæma þá hljómar það eins og stofnuninni sé þónokkur vandi á höndum…

„Við stöndum vissulega frammi fyrir áskorunum, sérstaklega þegar hafðar eru til hliðsjónar þær breytingar sem fram undan eru á starfsemi Persónuverndar með nýrri löggjöf. Í dag þurfum við að forgangsraða eins vel og við mögulega getum hverju einu og einasta máli sem okkur berst. Umfang starfseminnar er með ólíkindum og þess vegna er þetta mjög áhugaverður starfsvettvangur. Í dag vísa um hundrað lagabálkar í persónuverndarlögin og þess vegna erum við alltaf að máta þau við önnur réttarsvið. Verkefnin eru því eins misjöfn og þau eru mörg og geta tengst flóknum vísindarannsóknum, rafrænu eftirliti á vinnustað, eftirlitsmyndavélum og svo mætti lengi telja. Síðan eru það öll álitaefnin tengd nýju tækninni.

Almenningur hefur alltaf haft ótrúlega sterka tilfinningu fyrir því að það sé eitthvað til sem heitir vernd persónuupplýsinga og við það bætist að fjölmiðlar hafa einnig verið alveg einstaklega vakandi yfir rétti einstaklinga og hafa þannig hjálpað við að setja persónuverndarmál á radarinn hjá sem flestum. Ný persónuverndarlöggjöf er síðan að setja persónuvernd með afgerandihætti á kortið, ef svo má segja. Frá maímánuði 2018 þá liggur fyrir að persónuvernd er að verða eitt af lykilatriðunum í rekstri fyrirtækja, hins opinbera og allra þeirra sem vinna með persónuupplýsingar.“

Viðtalið við Helgu Þórisdóttur má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekinn Tölublöð.