Eftir lengsta samfellda hagvaxtarskeið í Bretlandi frá árinu 1992 varð stöðnun í landsframleiðslu í Bretlandi á 2. fjórðungi ársins. Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að breska hagstofan hafi í morgun birt endurskoðun á landsframleiðslutölum fjórðungsins, en bráðabirgðamat hennar gerði ráð fyrir 0,2% hagvexti frá 1. fjórðungi ársins. Greiningaraðilar höfðu spáð að landsframleiðslutölurnar yrðu endurskoðaðar niður á við og hljóðaði meðalspá þeirra upp á 0,1% hagvöxt á fjórðungnum. Innlend eftirspurn dróst saman um 0,3% í Bretlandi á milli fjórðunga. Útgjöld heimilanna drógust saman um 0,1% en þau hafa ekki sýnt samdrátt í 3 ár. Þá hefur samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu ekki verið meiri í 23 ár, en fjárfesting atvinnuveganna dróst saman um 5,3% milli fjórðunga. Vöxtur þjónustugeirans nam 0,2% á milli fjórðunga sem er jafnframt minnsti vöxtur geirans í nærri 13 ár. Hagvöxtur í Bretlandi frá sama tímabili í fyrra var 1,4% og hefur ekki verið minni frá 4. ársfjórðungi 1992.

Nýbirtar hagvaxtartölur undirstrika þann vanda sem Englandsbanka er á höndum um þessar mundir, þar sem dregur hratt úr hagvexti á sama tíma og verðbólguhorfur eru dökkar. Stýrivextir bankans hafa verið lækkaðir um 0,75 prósentustig frá desember í fyrra til apríl á þessu ári í því skyni að varna efnahagslægð í Bretlandi, og eru stýrivextir nú 5%. Verðbólga hefur á sama tíma aukist hratt og mældist 4,4% á ársgrundvelli í júlí, langt yfir 2% verðbólgumarkmiði bankans og 3% efri þolmörkum þess. Englandsbanki spáir að verðbólga aukist enn á 3. fjórðungi ársins og verði 4,9% að meðaltali á fjórðungnum. Greiningaraðilar spá því að stýrivöxtum bankans verði haldið óbreyttum út árið í 5% en að vextir verði lækkaðir um 0,25 prósentustig á 1. fjórðungi næsta árs.