Norskur bílaiðnaður hefur ekki verið mikið í sviðsljósinu, en það kann nú að vera að breytast samkvæmt frétt The Detroit News. Átta ríki í Bandaríkjunum hafa sýnt áhuga á að fá til sín nýja verksmiðju sem framleiða á rafbílinn Think þar í landi en norski angi fyrirtækisins hefur átt í miklum fjárhagskröggum.

Michigan þykir ákjósanlegur kostur í þessu sambandi, en þar er þegar fyrir rafgeymaverksmiðja General Motors. Er hugmyndin að verðið á Think verði aðeins 20.000 dollarar og að hverjum bíl fylgi leigusamningur á rafgeymum upp á 90 dollara á mánuði. Ráðgert er að framleiða 16.000 Think bíla á ári í 300 manna verksmiðju auk 70 manna tæknimiðstöðvar. Sökum lágs framleiðslukostnaðar á þessum plastbíl er talið að aðeins þurfi að selja 5.000 bíla til að verksmiðjan standi undir sér.

Ef vel tekst til eru svo áform um að hefja stækkun verksmiðjunnar árið 2012 þannig að hún afkasti 60.000 bílum á ári.

Aðeins 2000 eintök hafa verið framleidd af rafbílnum Think á tæplega 18 ára ferli. Áform eru nú um að stórauka framleiðsluna og hefja söluátak í Bandaríkjunum á næsta ári. Fyrirtækið hefur þegar fengið aðild að 25 milljarða dollara verkefni orkumálaráðuneytis Bandaríkjanna sem miðar að því að aðstoða og endurskipuleggja bílaiðnaðinn varðandi nýja tækni í greininni. Ekki hefur þó verið upplýst hversu mikið Think fær út úr því dæmi.

Í Noregi hefur framleiðsla á Think stöðvast vegna fjárhagserfiðleika, en vonast er til að hún geti farið í gang að nýju með vorinu. Fyrirtækið var upphaflega stofnað í Noregi árið 1991 og hét þá Pivco Industries. Ford Motor Co. keypti fyrirtækið árið 1999 og hóf framleiðslu að nýju á árinu 2003.