Einn þriðji hluti ítalskra karlmanna býr enn í foreldrahúsum eftir að hafa náð þrítugsaldri. Eru slíkir menn kallaðir "bamboccioni" sem útleggst á íslensku "stór börn." Er hárri leigu og atvinnuleysi kennt um ástandið. Til þess að snúa þessari þróun við hefur Tommaso Padoa-Schioppa, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Romano Prodi, lagt til að í fjárlögum næsta árs verði heimild til þess að veita þeim hugrökku mönnum sem hætta sér úr náðarfaðmi fjölskyldunnar út á leigumarkaðinn um 85 þúsund krónur í skattaívilnun. Hugmyndin hefur fallið í grýttan jarðveg meðal fjölmargra ítalskra stjórnmálamanna sem telja vandann liggja í miklu atvinnuleysi og ört hækkandi leiguverði.