Eyrir Invest tapaði 42,7 milljónum evra, jafnvirði 6.570 milljóna króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Til samanburðar tapaði félagið 25,9 milljónum evra á sama tíma í fyrra. Tapið skýrist að langstærstum hluta af gengislækkun hlutabréfa Marel á árinu. Eyrir Invest er helsti hluthafi Marel með rétt tæpan 30% hlut í félaginu. Gengi hlutabréfa Marel hefur lækkað um tæp 25% frá áramótum en gengishækkun á hlutabréfum félagsins varð á tímabili nánast að engu. Lækkun Marel skilaði sér í 34,5 milljóna lækkun á bókfærðu virði á eignarhlut Eyris í Marel á tímabilinu.

Fram kemur í uppgjöri Eyris að fjárfestingartap fyrirtækisins hafi numið tæpum 42,3 milljónum evra. Tekjur hafi numið aðeins 84 þúsund evrum á fyrstu sex mánuðum ársins borið saman við 300 þúsund evra tekjur á sama tíma í fyrra.

Í lok tímabilsins nam virði eigna 301,2 milljónum evra eða sem nemur rúmum 58 milljörðum íslenskra króna. Það er svipað og um síðustu áramót. Þá jukust skuldir nokkuð frá áramótum. Þær námu 165 milljónum evra á Gamlársdag en nema nú 175,2 milljónum evra eða sem nemur 33,9 milljörðum króna.

Eigið fé nam á sama tíma 126 milljónum evra, jafnvirði tæpra 24 milljörðum króna. Til samanburðar nam það 169 milljónum evra um áramótin. Með öðrum orðum lækkaði eigið fé félagsins um 43 milljónir evra frá áramótum eða um 8,3 milljarða króna frá áramótum.