Kostnaður vegna 500 milljarða króna lántöku ríkisins til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands yrði á bilinu 5-15 milljarðar króna og svo hár kostnaður vekur spurningu um hvort lántakan sé réttlætanleg.

Þetta kom fram í erindi Jóns Steinssonar, hagfræðings við Columbiaháskóla í New York, í málstofu um efnahagsmál sem haldin var í hátíðasal Háskóla Íslands í gær.

Jón sagði að hægt væri að bregaðst við lausafjárskorti bankanna í erlendri mynt á annan og síður kostnaðarsaman hátt en með stórri lántöku. Seðlabankinn gæti til að mynda veitt bönkunum lán í erlendri mynt gegn íslenskum verðbréfum, samhliða því að fjölga veðhæfum bréfum enn frekar.

„Undanfarið hefur verið settur töluverður þrýstingur á stjórnvöld að ráðast í að stækka gjaldeyrisvarasjóðinn til þess að Seðlabanki Íslands geti sinnt hlutverki sínu sem lánveitandi til þrautavara. Menn verða hins vegar að átta sig á því að þessi aðgerð er mjög kostnaðarsöm,“ sagði Jón og bætti við að skattgreiðendur myndu bera þann kostnað.

Hann sagði að slík lántaka væri í raun ákveðið form niðurgreiðslu fyrir bankastarfsemi í landinu. Það væri ekki með öllu óþekkt að ríkið greiddi niður ákveðna atvinnuvegi í landinu en slíkt væri ekki til eftirbreytni.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .