Þrátt fyrir hærri fargjöld og nýjar álögur á farþega geta flugfélög enn ekki safnað peningum eða dregið saman seglin nógu hratt til að vega upp á móti síhækkandi olíuverði, að því er greinir í frétt MSNBC fréttastofunnar. Þrátt fyrir að stóru amerísku flugfélögin eigi varasjóð telja greiningaraðilar að einhver þeirra muni verða uppiskroppa með fjármagn og verða gjaldþrota snemma á næsta ári.

Af stórum flugfélögum er US Airways talið líklegast til að verða gjaldþrota en þar á eftir kemur UAL, móðurfélag United Airlines. Sérfræðingur greiningardeildar Fitch Ratings segir að US Airways hafi færri möguleika til að afla lausafjár en önnur flugfélög, þar sem það geti ekki selt jafn mikið af eignum.

Flugfélög rukkuðu auka 25 Bandaríkjadali ofan á fargjald fyrir að tékka inn aðra ferðatösku hvers farþega en American Airlines munu byrja í næsta mánuði, fyrst flugfélaga, að rukka 15 dala aukagjald á fyrstu tösku manna. Andrew Light, hjá greiningardeild Citigroup, áætlar að þessar aðgerðir gætu skilað félaginu 320 milljónum Bandaríkjadala í tekjur. Olíureikningur American Airlines er hins vegar talinn hafa hækkað um 3 milljarða dala á þessu ári.

Óttast er að verðhækkanir á flugferðum geti orðið svo miklar á næstunni að flugmynstur neytenda breytist. Herb Kelleher, annar stofnenda Southwest Airlines, sem hætti nýlega sem forstjóri fyrirtækisins segir að flugferðir geti orðið munaðarvara sem aðeins efnað fólk hefur efni á, líkt og þær voru fyrir hálfri öld síðan, ef fram heldur sem horfir.