*

þriðjudagur, 22. september 2020
Erlent 13. september 2020 17:29

Stór frumútboð framundan í vikunni

Félag Davíðs Helgasonar fer á markað í næstu viku, það verður þriðja stærsta frumútboð Bandarísks hugbúnaðarfyrirtækis í sögunni.

Alexander Giess
Davíð Helgason er einn af þremur stofnendum Unity en félagið verður skráð í Kauphöll New York ásamt Snowflake, félagi í eigu Warren Buffett.
Heiða Halls

Alls er stefnt að því að safna 6,8 milljörðum Bandaríkjadala, andvirði 930 milljarða króna, í frumútboðum (e. initial public offering) í Bandaríkjunum í næstu viku. Ekki hefur jafn há upphæð safnast á einni viku með frumútboði í Bandaríkjunum síðan í maí á síðasta ári þegar hlutabréf Uber fóru á markað.

Hlutabréf þriggja hugbúnaðarfyrirtækja verða skráð á markað; Snowflake, Unity og Sumo Logic sem hyggjast safna um helming af fyrrnefndri upphæð. Stærsta útboðið er hjá Snowflake sem nemur 2,2 milljörðum dollara, andvirði 300 milljörðum króna, en Berkshire Hathaway, fjárfestingarfélag Warren Buffett hefur nýverið fjárfest í félaginu. Útboðið er talið vera það stærsta í sögunni hjá Bandarísku hugbúnaðarfyrirtæki.

Sjá einnig: Hathaway setur 80 milljarða í tækni

Hugbúnaðarfyrirtækið Unity Software, sem Davíð Helgason stofnaði, hyggst safna 950 milljónum dollara, um 130 milljörðum króna miðað við gengi dagsins í dag, sem myndi vera þriðja stærsta frumútboð Bandarísks hugbúnaðarfyrirtækis í sögunni. Frá þessu er greint á vef Financial Times.

Davíð er einn af þremur stofnendum Unity og mun hann eiga 4% hlut í félaginu að útboðinu loknu. Hluturinn mun vera um 350-440 milljóna dollara virði, eða sem samsvarar um 50-60 milljörðum króna. Markaðsvirði félagsins verður um 11 milljarðar dollara, jafnvirði um 1.500 milljarða króna.

Sjá einnig: Unity allt að 1.500 milljarða virði

Árið 2019 voru leikir sem byggja á hugbúnaði Unity sóttir í um 3 milljarða skipti á meira en 1,5 milljarða tækja. Pokémon Go er þar að meðal. Sumo Logic hyggst safna um 38 milljörðum króna. Alls safnaði Uber 8,1 milljarði dollara, andvirði 1.107 milljörðum króna, þegar félagið var skráð á hlutabréfamarkað á síðasta ári.

Samkvæmt viðmælanda Financial Times eru mörg félög að flýta frumútboði sínu vegna góðs gengis á mörkuðum. Þar er tekið fram að verðmat sem byggir á sögulegum gögnum eigi ekki við lengur. Mikil nýsköpun, lágt vaxtaumhverfi og magnbundin íhlutun Seðlabankans eru sögð hafa breytt umhverfi fyrirtækjanna.

Enn fremur segir starfsmaður Renaissance Capital að félög vilji skrá sig á markað áður en forsetakosningarnar fara fram þar sem velta á mörkuðum kann að aukast um það leiti. Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram 3. nóvember næstkomandi.

Stikkorð: Unity Snowflake Frumútboð