Afborgarnir og vextir af erlendum lánum Orkuveitu Reykjavíkur nema í ár alls tæplega 30 milljörðum króna og þar af er einn tíu milljarða gjalddagi í lok apríl, að sögn Ingvars Stefánssonar, framkvæmdastjóra fjármála hjá OR. Orkuveitan fékk í fyrra heimild frá Seðlabankanum til að kaupa gjaldeyri á markaði smám saman yfir lengri tíma til að afla gjaldeyris fyrir þessar afborganir.

„Þetta er gert svo við séum ekki að fara inn á markaðinn daginn fyrir gjalddaga og kaupa allan gjaldeyri sem við þurfum á að halda,“ segir Ingvar. Eins og gefur að skilja myndu slík stórkaup geta haft óæskileg áhrif á markaði og gengi krónunnar og því veitti Seðlabankinn áðurnefnda heimild.

Ingvar segir að Orkuveitan hafi undanfarið verið að safna gjaldeyri fyrir apríl gjalddagann, en tekur fram að Orkuveitan keypti ekki mikið af gjaldeyri í dag. Krónan hefur veikst í dag, en hann segir að þar sé einhver annar en Orkuveitan á kauphliðinni.