Hlutfall útlána Kaupþings, sem hafa verið á athugunarlista skilanefndar bankans, hefur lækkað mikið á einu ári. Í mars 2009 var 41% af norræna lánasafni bankans á athugunarlistanum og 76% af evrópska lánasafninu. Þetta voru lán þar sem ekki var staðið við afborganir og lánaskilmálar höfðu verið brotnir.

Um síðustu áramót var þetta hlutfall komið niður í 11% fyrir norræna lánasafnið og 24% fyrir evrópsku lánin. Lánin eru flokkuð á þrjá vegu; lán í skilum og greitt er af, lán sem hefur verið endursamið um og er í skilum og lán sem eru á athugundarlista því þau eru ekki í skilum.

Í lok árs 2009 námu lán til viðskiptavina að nafnvirði 1.373 milljörðum króna. Hins vegar var raunvirði þessara lána metin 451 milljarða króna í bókum bankans.  Þar af tilheyrðu 152 milljarðar norræna lánasafninu, 176 milljarðar evrópska lánasafninu og 39 milljarðar eru óflokkaðir. Þau lán eru í umsjá undirnefndar skilanefndar sem hefur það hlutverk að hámarka endurheimtur og fara yfir lánaviðskiptin með tilliti til þess hvort höfða þurfi mál til að ná markmiðum um endurheimtur.