Stór hluti af tekjum bankanna þriggja, Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka, var tilkominn vegna endurmats á bókfærðu virði útlána og krafna, en eignir voru færðar yfir frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með töluverðum „afslætti“ frá bókfærðu virði. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu Bankasýslu ríkisins.

„Hafa verður í huga að uppgjör bankanna vegna ársins 2009 einkennast mjög af óreglulegum liðum sem stafa af uppgjöri nýju bankanna við þá gömlu,“ segir í skýrslunni.

Áhrif á afkomu vegna endurmats eigna voru sérstaklega mikil hjá Landsbankanum og Arion banka. „Því til viðbótar höfðu breytingar á gengi gjaldmiðla umtalsverð áhrif á afkomu bankanna á árinu 2009. Gjaldeyrissveiflur höfðu jákvæð áhrif á afkomu Arion banka og Íslandsbanka, en neikvæð áhrif á afkomu Landsbankans (NBI).“

Í skýrslunni segir að arðsemis- og hagnaðartölur bankanna fyrir árið 2009 gefi því ekki glögga mynda af arðsemi bankanna af því sem kalla má af reglulegum rekstri eða kjarnastarfsemi. Arðsemi eigin fjár Arion banka var 16,7%, hjá Íslandsbanka 35,3% og 10,0% hjá Landsbankanum.