*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 7. júlí 2017 13:38

Stór hluti varðar frjáls vöruviðskipti

Félag atvinnurekenda bendir á að samkvæmt samantekt ESA varði átta af átján EES-tilskipunum, sem ekki hafa verið innleiddar í tíma, afnám tæknilegra hindrana í vegi frjálsra vöruviðskipta.

Ritstjórn

Íslandi gengur illa að innleiða EES-reglur eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá. Innleiðingarhallinn svokallaði, það er hlutfall reglna sem ekki hafa verið leiddar í lög á Íslandi á réttum tíma, var í lok ársins 2016 2,2% samkvæmt nýjustu úttekt Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Samkvæmt viðmiðum ESA og Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar frá 2014 ætti innleiðingarhallinn ekki að vera meiri en 1%.

Í frétt á vefsíðu Félags atvinnurekenda er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að áhyggjuefni sé að samkvæmt samantekt ESA varði átta af átján EES-tilskipunum, sem ekki hafa verið innleiddar í tíma, afnám tæknilegra hindrana í vegi frjálsra vöruviðskipta.

„Það er mikið hagsmunamál atvinnulífsins að sömu reglur gildi hér á landi og í öðrum ríkjum EES, ekki síst til að milliríkjaviðskipti gangi snurðulaust fyrir sig. Við höfum hvatt til þess að stjórnvöld setji að minnsta kosti tímabundið aukinn mannskap og fjármuni í að rétta af innleiðingarhallann og komið þeim sjónarmiðum okkar á framfæri við starfshópinn sem vinnur nú að endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar til framtíðar. Kröftum embættismanna ráðuneytanna og sendiráðs Íslands í Brussel á að verja til að hafa áhrif á EES-löggjöf á mótunarstigi hennar, ekki í endalausan eltingaleik við tilskipanahalann og að berjast í vonlausum dómsmálum fyrir EFTA-dómstólnum,“ segir Ólafur.

Stikkorð: EES FA tilskipanir reglugerðir innleiðing