Hluthöfum Íslandsbanka hefur fækkað úr rúmlega 24.000 í um 20.000 á þeim þremur vikum sem bankinn hefur verið skráður á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Hluthafahópurinn hefur því minnkað um liðlega 17%. Markaðurinn greinir frá.

Ríkissjóður seldi 35% hlut í Íslandsbanka fyrir 55,3 milljarða króna í hlutafjárútboði sem lauk fyrir rúmum mánuði. Alls bárust tilboð fyrir 486 milljarða króna og því var níföld eftirspurn í útboðinu.

Eins og kom fram að ofan var fjöldi hluthafa að útboði loknu um 24 þúsund, sem var mesti fjöldi hluthafa í skráðu félagi hér á landi. Lágmarkstilboð í útboðinu var 50 þúsund krónur og ekki voru skert tilboð undir einni milljón. Innlendir fjárfestar fengu um 24% hlut í bankanum og erlendir um 11% hlut.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði strax í kjölfar útboðsins og var um 20% hærra á fyrsta viðskiptadegi í Kauphöllinni heldur en í útboðinu þar sem gengið var 79 krónur á hlut. Gengið hefur hækkað talsvert á síðustu vikum og stendur nú í 106,5 krónum á hlut, 35% yfir útboðsgenginu.