„Þrír löggiltir endurskoðendur stofnuðu félagið fyrir 40 árum. Einn, hafði rekið bókhaldsstofu, annar, faðir minn Helgi V. Jónsson, var borgarendurskoðandi og sá þriðji, Ólafur Nilsson, var skattrannsóknarstjóri. Þeir höfðu samstar í kringum samruna Flugfélags Íslands og Loftleiða á sínum tíma og ákváðu að rugla saman reytum. Félagið hét upphaflega Endurskoðun hf. og voru eiginkonur þeirra með þeim í stofnun félagsins. Félagið óx jafnt og þétt í raun alveg fram að hruni 2008,“ segir Jón Sigurður Helgason, forstjóri KPMG. Fyrirtækið heldur nú upp á fjörutíu ára afmæli sitt, en einnig eru þrjátíu ár frá því að samstarfið við KPMG erlendis hófst.

Jón segir fyrirtækið hafa verið nokkuð stórt í fjármálageiranum en að þær breytingar sem Alþingi setti á sínum tíma hafi þó ekki haft umtalsverð áhrif á fyrirtækið. „Almennt höfum við heldur verið að auka markaðshlutdeild okkar í samanburði við hin stóru félögin þrjú. Hrunið var erfitt fyrir öll félög á Íslandi og þar eru endurskoðendur alls  ekki undanskildir. Endurskoðunarfyrirtækin fengu á sig töluverða ágjöf hjá almenningi, en sem betur fer hafa viðskiptavinir okkar haldið tryggð við okkur og sýna kannanir að þeir eru mjög ánægðir með okkur.

Í hruninu var rætt um það þegar Kaupþing féll að það hlyti að hafa haft skelfileg áhrif á okkur. Bankinn var mjög stór og gerðu menn ráð fyrir því að við hlytum því að hafa verið undir hælnum á bankanum og mjög háðir honum fjárhagslega. Staðreyndin var hins vegar sú að tekjur okkar frá Kaupþingi voru aðeins um 3% af heildartekjum KPMG. Við erum sjálf 120. stærsta fyrirtæki landsins og kúnnahópurinn er mjög stór og tekjurnar dreifast mjög vel. Hvert einasta fyrirtæki skiptir mjög miklu máli, en enginn einn viðskiptavinur er það stór að hann geti haft óeðlileg áhrif á fyrirtækið í krafti stærðar sinnar.“

Ítarlegt viðtal við Jón er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .