Þetta er alþjóðamarkaður. Hann er lítill hér á landi en úti í heimi er þetta rosalega stór markaður. Til að sýna á hundasýningu þarf sérstakan sýningartaum. Við erum á markaðshillu sem er sértæk og markviss, sem er sýningarhundar og sýningarheimurinn,“ segir Bjarndís Helena Mitchell, sem hefur stofnað nýtt félag, Handlers ehf., utan um framleiðslu sína á hundaólum og taumum. Ætlunin er að flytja vörurnar út á þennan markað og ná til hundasýnenda um allan heim.

Hún hafði áður stofnað félag með sama nafni árið 2009 en það fór í þrot í lok síðasta árs. „Ég er komin með mikla reynslu,“ segir hún um það mál, en nú sé hún að byrja upp á nýtt að hluta, en byggi þó á reynslunni og sömu vörum. Bjarndís fékk til að mynda fimm stjörnu gæðavottun hjá AmericanPet Accociation, APA, fyrir nokkrum árum fyrir vörur sínar og þjónustu. Hún hefur líka ræktað hunda og þekkir sýningarbransann vel frá ýmsum hliðum.

„Ég átti einkaleyfishugmynd að sérstöku handfangi og hönnun á sérstökum taumi fyrir hundategundir,“ segir Bjarndís Helena. Handfangið gerir hundasýnendum kleift að stilla lengd hundaólarinnar fyrir hvern hund og sýnanda og hugmyndin kom út frá reynslu Bjarndísar sjálfrar. Þótt hönnun hennar sé sérstaklega ætluð sýningarhundum getur hún nýst öllum hundum og hundaólum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .