Hafrannsóknastofnun á eftir að meta magn loðnunnar og kanna hvort hún er kynþroska. Birkir Bárðarson, fiskifræðingur Hafrannsóknastofnunar, segir að sé hún kynþroska væru það töluverð tíðindi.

Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq hefur verið í loðnuleitarleiðangri fyrir norðan land síðan á föstudag.

„Þetta er stór og falleg loðna,“ sagði Geir Zoëga, skipstjóri á Polar Amaroq, þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans á þriðjudag.

„Við fórum út á föstudagskvöldið. Byrjuðum norðvestur af Straumnesi og erum búnir að krussa okkur djúpt hingað austur fyrir Kolbeinsey. Við fengum loðnu strax á fyrsta legg, norðvestur af Straumnesi, en það var svolítið blönduð loðna en síðan er þetta búið að vera 100 prósent loðna eða nánast.“

Geir skipstjóri segir góða stemmningu vera um borð: „Menn eru mjög glaðir og ánægðir að finna loðnulyktina.“

Þetta séu góðar fréttir og brúnin léttist klárlega á mörgum.

„Þetta er loðnan sem fannst ekki í haust.“

Áhugavert

Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, hefur stýrt loðnuleiðöngrum stofnunarinnar undanfarin ár. Hann segir að það verði áhugavert að sjá hvort þessi loðna er kynþroska og hvert magnið er.

„Það gæti gagnast okkur í janúar þegar við skipuleggjum okkar leiðangur. Tilgangurinn nú er aðallega að kortleggja útbreiðsluna og sjá hvað væri að gerast í gönguhegðuninni hjá henni.“

Leiðangurinn er fjármagnaður af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi en farinn í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og skipulagður samkvæmt ráðleggingum frá henni.

„Við erum þeim innanhandar og svo taka þeir sýni sem þeir senda til okkar og við munum greina. Þeir eru að mæla með dýptarmælum og við munum fá bergmálsgögnin frá þeim. Ég á ekki von á að það komi beinlínis stofnmat út úr því en við munum sjá hvernig hún liggur og samsetninguna líka.“

Hann segir fréttir hafa verið að berast af loðnu með kantinum fyrir norðan land og út af Vestfjörðum. Það sem við höfum séð og fengið upplýsingar um þá hefur þetta hugsanlega verið blanda af ungloðnu og fullorðinni.

Kynþroska eða ekki?

Birkir vill ekki fullyrða mikið út frá frásögnum eingöngu, en mögulega geti þarna verið á ferðinni óvænt tíðindi:

„Nú veit maður ekkert um magn, hvort þetta er eitthvað magn sem um er talandi. Það er mjög erfitt að leggja mat á svoleiðis út frá fréttum frá veiðiskipum á svæðinu en þetta hljómar aðeins eins og það sé kannski óvenju mikið af henni með landgrunnskantinum fyrir norðan. Og þá er spurningin hvort hún er að megninu ungloðna eða kynþroska loðna, og ef hún er kynþroska þá er þetta nú aðeins óvenjulegt.“

Síldarvinnslan hf. greindi fyrst frá þessum leiðangri á heimasíðu sinni á þriðjudag. Þar segir að enginn fulltrúi frá Hafrannsóknastofnun sé um borð en allt sé gert eins og um hefðbundna vetrarmælingu sé að ræða.

„Ég hef verið bjartsýnn á loðnuvertíð í vetur og nú hef ég góð rök fyrir bjartsýninni. Þetta lítur bara afskaplega vel út,“ er haft þar eftir Geir.

Aftur á kolmunna næst

Í samtalinu við Fiskifréttir segir Geir að í síðustu viku hafi verið teknar að berast fréttir af loðnu fyrir norðan og þá hafi verið haft samband við Polar Amaroq.

„Við vorum í Reykjavík í vélarupptekt og vorum spurðir hvort við hefðum tíma og gætum farið. Jú, við gátum það. Þetta er allt gert í samstarfi við Hafró og það er gott að vinna með þeim. Toppmenn.“

Þegar þessum túr lýkur verður haldið aftur á kolmunna.

„Við eigum eftir eitthvað tæpan túr í kolmunna og tökum það.“