Hreint ehf. var stofnað 12. desember 1983 og er eitt elsta og stærsta ræstingafyrirtæki landsins. Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, segir fyrirtækið sinna faglegum ræstingum fyrir fyrirtæki og stofnanir. ,,Við erum 33 ára fyrirtæki og búum því að mikilli reynslu sem við nýtum í þágu okkar viðskiptavina,“ segir Ari.

„Með reglulegum ræstingum er verið að verja verðmæti fyrirtækja og stofnana og hlúa að heilsu starfsfólks. Það átta sig ekki allir á því að ræstingar eru mikilvægt heilbrigðismál. Við hjá Hreint erum mjög meðvituð um þetta og vitum að það skilar sér til viðskiptavina okkar.“ Ari segir að ræstingageirinn á Íslandi sé stór, svipaður að stærð og auglýsingageirinn, sem eðli málsins samkvæmt ber þó meira á.

„Ræstingar á Íslandi velta á bilinu fimm til sjö milljörðum króna árlega. Samkeppnin í ræstingageiranum jókst gríðarlega í hruninu. Það er eiginlega ekkert verkefni svo smátt að það sé ekki boðið út, og samkeppnin er afar hörð. Við lítum svo á að við séum ekki bara að keppa í verði, heldur leggjum áherslu á gæði þjónustunnar. Við vitum það vel að það er ekki sama hvernig staðið er að ræstingum þó að flestir stjórnendur horfi fyrst og fremst á verð þjónustunnar.“

Nánar er fjallað um málið í Framúrskarandi fyrirtækjum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .